Skert langtíma sykurþol

Lyfjainntaka

Ég er pínu óörugg með lyf sem ég var að fá og byrja að taka. Ég fékk þær niðurstöður úr sykurþolsprófi að ég væri með skert langtíma sykurþol. Læknirinn ráðlagði að ég færi á Metformin, 1 tafla morguns og kvölds fyrstu 2 vikurnar og svo 2 í hvort skipti og taka stöðuna í lok sumars. Hann talaði um breytt mataræði, minnka skammta og auka hreyfingu.
Það sem ég velti fyrir mér er hvort ég geti einhvers staðar séð nánar eða lesið hvað breytt mataræði felur í sér? Á ég að forðast alveg sykur og sætar vörur, minnka magnið, fara í diet vörur eða hvað? Sé að það er talað um að forðast áfengi. Er þá verið að meina að algerlega sleppa því eða er í lagi að fá sér einn lítinn öl af og til án þess að drekka sig undir borðið ;)  Er að fara af stað í hreyfingu og eðlilegu lífi eftir 3ja mánaða veikindi. Hélt ég fyndi eitthvað á netinu en finn lítið um þetta, meira um sykursýki 1 og 2 og veit ekki hvar ég passa inn. Læknirinn gaf í skyn að ég þyrfti kannski ekki endilega þessar töflur en þær myndu hjálpa til að hlutirnir kæmust fyrr í samt lag. Mig langar að skilja örlítið betur hvernig þetta lyf virkar best og hvað, ef eitthvað, ég á að varast við inntöku þess. Verð alveg ringluð af að lesa fylgiseðilinn með lyfinu. Upplýsingarnar á Lyfjabókinni  eru hnitmiðaðri en samt átta ég mig ekki alveg á þessu með breytta mataræðið og hvað nákvæmlega felst í því?

Ég ætla að benda þér á nokkrar síður til að renna yfir.

Í fyrsta lagi geturu lesið yfirlit um sykursýki 2 á vefsíðu LyfjuÞar segir meðal annars að undanfari sykursýki af tegund 2 sé oft svokallað skert sykurþol. Ég vil þó ekki hræða þig með þessu en tel að ráðleggingar fyrir þá sem þjást af sykursýki 2 henti þér betur. 

Eins og þú segir sjálf er lítið um beinar ráðleggingar til þeirra sem aðeins hafa greinst með skert langtíma sykurþol. Flest allt efnið er sniðið að þeim sem hafa verið greindir með sykursýki. Það breytir því þó ekki að þarna er mikið af gagnlegum upplýsingum sem fínt er að tileinka sér.

Metformin er lyf sem hefur blóðsykurslækkandi áhrif, það lækkar bæði grunn og eftirmáltíðar glúkósu í plasma (glúkósa er það form sykurs sem líkaminn nýtir sér - blóðsykur). Verkun metformins er talin vera þrenns konar: 
Í fyrsta lagi dregur metformin úr framleiðslu glúkósu í lifur. Í öðru lagi verkar það í vöðvum með því að auka virkni insúlíns, bæta upptöku og nýtingu glúkósu í úttaugakerfi (Insúlín sér í raun um að reka glúkósuna inní frumurnar til notkunar sem þannig lækkar blóðsykurinn) og í þriðja lagi seinkar það frásogi (upptöku) glúkósu frá smáþörmum svo að minni glúkósa skilar sér út í blóðið. 

http://www.lyfjabokin.is/Lyf/MetforminActavis/  - Þarna geturu einnig lesið þér til um lyfið. 

Þetta er dálítið yfirgripsmikið svar en ég vona þó að það nýtist þér eitthvað. Ef það er eitthvað fleira er þér velkomið að hafa aftur samband. Gangi þér vel!