Lumigan

Glákulyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Bimatóprost

Markaðsleyfishafi: AbbVie Deutschland | Skráð: 1. apríl, 2005

Lumigan er notað við gláku og háum augnþrýstingi. Gláka stafar af ójafnvægi milli framleiðslu augnvökva og frárennslis hans þannig að vökvinn safnast fyrir og þrýstingur í auganu hækkar. Þegar þrýstingurinn hækkar geta æðar til sjónhimnu þrengst og blóðflæði um þær minnkað. Ef ekki er brugðist við í tíma getur það valdið skemmdum í sjónhimnunni og jafnvel blindu. Gláka er flokkuð í tvær tegundir, þrönghorns- og gleiðhornsgláku, eftir því hvernig frárennsli augnvökvans er hindrað. Mismunandi lyf geta átt við eftir því um hvora tegundina er að ræða. Bimatóprost dregur út augnþrýstingi með því að auka útflæði augnvökvans. Lumigan er notað við gleiðhornsgláku og háum augnþrýstingi og þá annaðhvort eitt sér eða með beta-blokkara.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Augndropar.

Venjulegar skammtastærðir:
1 dropi í auga einu sinni á dag að kvöldi.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
4 klst. eftir fyrstu gjöf.

Verkunartími:
Áhrifin vara í a.m.k. 24 klst.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá. Nota skal lyfið innan 4ra vikna frá því að innri umbúðir eru opnaðar.

Ef skammtur gleymist:
Notaðu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að nota lyfið eins og venjulega. Ekki nota tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ekki skal hætta notkun lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að valda óþægindum. Ef stórir skammtar eru notaðir eða ef vart verður við óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni. Tíðari notkun getur dregið úr þrýstingslækkandi verkun lyfsins.

Langtímanotkun:
Fylgjast þarf reglulega með augnþrýstingi til að meta áhrif lyfsins.


Aukaverkanir

Aukaverkanir af völdum lyfsins eru yfirleitt ekki alvarlegar og hætta hlutfallslega fáir sjúklingar að taka lyfið þeirra vegna. Algengustu aukaverkanir eru vöxtur augnhára, roði í augum og augnkláði.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Bjúgur á útlimum        
Erting, kláði og roði í augum          
Hækkaður blóðþrýstingur          
Höfuðverkur, sjóntruflanir          
Roði og bólga í augum eða augnlokum          
Sýkingar í efri öndunarfærum          
Vöxtur augnhára          

Milliverkanir

Milliverkanir eru ekki þekktar. Ef önnur staðbundin augnlyf eru notuð samtímis, þurfa að líða a.m.k. 5 mín. á milli ídreypinga.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú eigir við öndunarerfiðleika að stríða

Meðganga:
Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá þunguðum konum.

Brjóstagjöf:
Ekki er vitað hvort lyfið berst í brjóstamjólk.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára.

Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.

Akstur:
Eins og á við um önnur augnlyf getur notkun augndropa valdið tímabundnum sjóntruflunum.

Áfengi:
Í litlum skömmtum hefur áfengi ekki áhrif á verkun lyfsins.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.

Annað:
Rotvarnarefni í augndropunum getur skemmt mjúkar augnlinsur. Fjarlægja skal augnlinsur áður en lyfinu er dreypt í augu en setja má linsurnar í augun aftur 15 mín. eftir notkun lyfsins.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.