Sandomigrin

Mígrenilyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Pízótífen

Markaðsleyfishafi: Ethyx Pharmaceuticals | Skráð: 1. apríl, 1974

Sandomigrin er notað til að fyrirbyggja mígreniköst og til að draga úr tíðni mígreniskasta. Orsakir mígrenis eru ekki ennþá þekktar að fullu. Flest bendir þó til að um sé að ræða truflun á starfsemi slagæða sem liggja til heila og heilahimna. Í upphafi mígreniskasts þrengjast æðarnar mikið, víkka síðan snarlega á nýjan leik, blóðrennslið eykst um þær og einmitt þá kemur höfuðverkurinn. Nýlegar rannsóknir hafa þó leitt í ljós að þetta er ekki alveg svona einfalt, heldur er líka um að ræða truflun á taugastarfsemi. Augu manna hafa beinst að taugaboðefnum sem kallast bíogen amín og eru í sama flokki og serótónín, histamín og tryptamín, en pízótífen, virka efnið í Sandomigrin, hemur virkni allra þessara taugaboðefna. Talið er að með því að pízótífen takist að hemja áður talin taugaboðefni megi draga úr tíðni og styrkleika mígreniskastanna.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
Fullorðnir: 0,5 mg í senn 3svar á dag. Í byrjun er ráðlegt að taka heldur minni skammta. Börn eldri en 10 ára: 0,5 mg kvölds og morgna. Börn yngri en 10 ára: 0,5 mg að kvöldi.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Innan við 1 klst.

Verkunartími:
Misjafn eftir ástandi sjúklings.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Taktu lyfið svo lengi sem læknir segir fyrir um. Einkenni sjúkdómsins geta aftur komið fram þegar töku lyfsins er hætt. Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef barn notar lyfið eða ef vart verður við einhver óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni.

Langtímanotkun:
Engin þekkt vandamál.


Aukaverkanir

Algengasta aukaverkunin er syfja og kemur fyrir hjá um 15% sjúklinga.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Aukin matarlyst, þyngdaraukning          
Syfja, þreyta          
Útbrot og mikill kláði          

Milliverkanir

Lyfið eykur sljóvgandi áhrif svefn-, tauga- og ofnæmislyfja.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með flogaveiki
  • þú sért með gláku
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með stækkaðan blöðruhálskirtil
  • þú takir einhver önnur lyf

Meðganga:
Engin þekkt áhætta er af notkun lyfsins á meðgöngu. Ekki taka nein lyf á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu nema í samráði við lækni.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk en í venjulegum skömmtum er ólíklegt að það hafi áhrif á barnið.

Börn:
Minni skammtar eru notaðir.

Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.

Akstur:
Lyfið getur skert viðbragðsflýti. Ekki aka bíl fyrr en reynsla er komin á það hvaða áhrif lyfið hefur.

Áfengi:
Lyfið eykur sljóvgandi áhrif alkóhóls. Æskilegt er að halda áfengisneyslu í lágmarki meðan lyfið er tekið.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.