Lyfja hf. hefur fengið jafnlaunavottun Velferðarráðuneytisins

Lyfja hf hefur ætíð staðið framarlega er varðar jafnréttismál og hlaut Jafnlaunavottun VR fyrst árið 2015.  Í febrúar 2018 fékk fyrirtækið einnig staðfesta Jafnlaunavottun frá Velferðarráðuneytinu og er Lyfja hf. í hópi fyrstu fyrirtækja á Íslandi til að hljóta þá vottun.  

Við erum mjög stolt af þessum vottunum og þeim góða árangir sem fyrirtækið hefur náð í jafnréttismálum.

Nánar um jafnlaunavottunina

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á Jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Jafnlaunastaðallinn ÍST 85 er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi. Staðallinn nýtist öllum fyrirtækjum og stofnunum óháð stærð, starfsemi, hlutverki og kynjahlutfalli. Hann tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns. Jafnlaunastaðallinn ÍST 85 er til sölu hjá Staðlaráði Íslands.

Faggiltur vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt og þar með unnt að veita viðkomandi fyrirtæki eða stofnun jafnlaunavottun.

Samkvæmt 4. gr. laga nr.10/2008 hefur Jafnréttisstofa eftirlit með framkvæmd laganna og kemur stofnunin því til með að hafa eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir sem falla undir lögin öðlist jafnlaunavottun. Stofnunin gefur út jafnlaunamerki þegar henni hefur borist vottunarskírteini ásamt skýrslu um niðurstöðu úttektar frá aðila sem hefur hlotið faggildingu í samræmi við reglugerð um vottun nr. 1030/2017 á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85. Reglur um notkun jafnlaunamerkisins eru birtar sem fylgiskjal með reglugerðinni. Jafnframt hafa sértæk viðmið fyrir vottunaraðila jafnlaunastaðalsins ÍST 85 (leiðbeinandi reglur) verið birt á heimasíðu Velferðarráðuneytisins.

Nánari upplýsingar um jafnlaunastaðalinn og vottunarferlið má finna á heimasíðu Velferðarráðuneytisins