Lyfja valin Markaðsfyrirtæki ársins 2022

Lyfja var valið markaðsfyrirtæki ársins þegar íslensku markaðsverðlaunin voru afhent í 29. skipti við hátíðlega athöfn í Hörpu. Þetta er í fyrsta skipti sem Lyfja hlýtur þessa viðurkenningu.

„Vörumerki Lyfju hefur farið í gengum allsherjar stefnumörkun. Þaulskipulagt og vandlega útfært markaðsstarf Lyfju síðustu tvö ár hefur skilað markvissum árangri, skýrri ásýnd og gríðarlegum árangri bæði í rekstri og afkomu félagsins. Vörumerkjastefnan er skýr og staðföst í gegnum allt þeirra starf. Með nýrri ásýnd hefur Lyfja náð að breyta heildarupplifun apóteka með breytingu í verslunum, aukinni fræðslu og nýrri tækni.

Stjórnendur hafa trú á að markaðsáhersla sé rétta leiðin til að ná árangri og markaðsleg gildi endurspeglast í allri starfsemi fyrirtækisins. Viðskiptavinir og starfsfólk eru ávallt í forgrunni og skilningur á því að þjónusta og lausnir munu breytast þegar til framtíðar er litið. Lyfju teymið virðist samstíga og tryggt er að allir gangi í takt í átt að sömu markmiðum, að lengja líf og auka lífsgæði Íslendinga.‘‘

Dómnefndin var skipuð fulltrúum úr stjórn ÍMARK, atvinnulífinu og háskólasamfélaginu með þverfaglega þekkingu og reynslu í huga.