Af hverju sjóböð?
Hugmyndafræði Glaðari þú er að stunda sjóinn með mildi, hlustun, slökun og leikgleði að leiðarljósi. Af því að allir sem vilja geta stundað sjóböð.
“Ég er ný manneskja þegar ég kem upp úr sjónum”
“Ég finn fyrir miklu betri andlegri líðan”
“Sjóböðin gera mig glaðari”
“Verkir sem ég var með þegar ég byrjaði í sjónum eru horfnir”
“Ég stunda sjóinn til að vinna með bólgur og ég finn mikinn mun”
“Ég finn að sjóböðin eru valdeflandi”
“Ég var mjög slæm í bakinu, en finn mikinn mun á verkjum þegar ég mæti reglulega í sjóinn”
“Ég er að takast á við sorg og sjóböðin með Glaðari þú eru að hjálpa mér svo mikið”
Þetta eru nokkrar af þeim setningum sem þátttakendur á sjóbaðsleikjanámskeiðinu Glaðari Þú hafa deilt með okkur. Við byrjuðum fyrst með námskeiðin okkar í nóvember 2020 í miðju Covid, þegar landsmenn þráðu einmitt útiveru og samvistir sem mögulegt var að stunda utandyra. Við höfum frá þeim tíma boðið upp á sjóbaðsnámskeið í hverjum mánuði, frá september til maí og höfum smám saman þróað okkar eigin áherslur og aðferðir við sjóböðin og kuldaþjálfunina.
Sjóböð og hugmyndafræði Glaðari Þú.
“Glaðari þú” hugmyndafræðin okkar er að stunda sjóböð í mildi, af hlustun og með leikgleði að leiðarljósi. Við leggjum ríka áherslu á að öll virði sín mörk og beiti virkri hlustun í hvert sinn sem við mætum í sjóinn. Þetta er mikilvægt því dagsformið okkar getur verið mjög mismunandi, allt eftir því hvað annað á sér stað í lífinu, t.d. ef við erum ekki að sofa vel eða ef við erum á einhvern hátt undir auknu álagi. Viðnámið okkar við kulda verður nefnilega minna ef við erum illa upplögð eða undir álagi og við viljum alltaf virða það og að mæta líðan okkar í hvert sinn sem við stundum sjóinn. Á þann háttinn verður kuldaþjálfunin uppbyggileg, endurnýjandi og gagnleg og við fyllum vel á orku tankinn.
Ef við beitum ekki hlustun og meðvitund á eigin líðan er hætta á að við göngum nærri okkur með því að gera of mikið eða að vera of lengi í köldum sjó. Við erum því aldrei að “taka á því” eða “sýnast” í sjónum. Þannig hugarfar getur verið hættulegt við að stunda köld sjóböð við Íslandsstrendur. Það er því engin þumalputtaregla til sem segir þér hversu lengi þú átt að vera í sjónum í hvert sinn, því þolið við kulda er mjög einstaklingsbundið og það er mikilvægt að öll hlusti vel á eigin líðan, beiti skynsemi og meðtaki þá staðreynd að kuldaþjálfunin er árangursrík líka þegar þú staldrar stutt við í sjónum eða ákveður að vaða “bara” upp í mitti.
Við reglulega ástundun lærir líkaminn betur á aðstæður og það er alltaf þægilegra að mæta í sjóinn þegar það hefur ekki liðið of langt frá síðustu heimsókn. Óþægindin hverfa þó aldrei alveg og það er alltaf áskorun að ganga út úr þægindarammanum og út í kaldan sjó, bæði að vetri og sumri til. Í því felst æfing í þrautseigju sem er mikilvægur styrkleiki í lífinu. Í hvert sinn þegar þú ferð í kaldan sjó þarftu að yfirvinna röddina “er ekki bara betra að vera heima í kósý?”
Það að beita hlustun, mildi og leikgleði á að sjálfsögðu líka við ýmsa aðra hluti sem við tökumst á við í lífinu og ekki bara þegar við stundum köld sjóböð. Sjóböðin minna okkur á að hreyfa við þægindahringnum og hversu mikilvægt það er að fara reglulega út fyrir hann. Stækkun og vöxtur á sér stað utan þægindarammans.
Slökun og öndun
Við leggjum mikla áherslu á góðan undirbúning áður en við stundum sjóböðin og við notum til þess núvitundar-, slökunar- og öndunaræfingar sem aðstoða okkur við að róa taugakerfið í þessum krefjandi aðstæðum. Slökun og sátt við líðan okkar er eitt það mikilvægasta sem við gerum til að efla og styrkja taugakerfið á meðan á kuldaþjálfuninni stendur. Við slökum meðvitað inn í þessar krefjandi aðstæður, finnum að við erum við stjórn og erum róleg og yfirveguð. Við segjum við okkur: “Ég finn fyrir kuldanum en það er í lagi með mig”. Þessa líðan getum við svo yfirfært á ýmsar aðrar krefjandi aðstæður í lífinu. “Fyrst ég get farið í kaldan sjó, þá get ég líka tekist á við krefjandi samtal eða erfiðan dag í vinnunni”.
Sjórinn sem spegill
Sjórinn er líka spegill á taugakerfið okkar og þannig geta sjóböðin kennt okkur mikið um okkur sjálf og hvar við erum stödd á streituskalanum. Þar spilar dagsformið stórt hlutverk og því er mjög mikilvægt að stunda sjóböð í góðri hlustun við þinn líkama. Einn daginn þolir þú kuldann vel og annan dag alls ekki eins vel.
Hvað segja rannsóknir?
Talið er að sjóböð í köldum sjó hafi margvísleg jákvæð áhrif á líkamann. Kuldaþjálfun er meðal annars talin efla ónæmiskerfið, bæta svefn og þú upplifir betri og fljótari endurheimt eftir ræktina þar sem blóðflæði eykst og bólgur í vefjum líkamans minnka. Köldu böðin eru einnig örvandi og nærandi fyrir húðina og öflugar æfingabúðir fyrir hjarta- og æðakerfi. Kuldaþjálfun getur haft góð áhrif á taugakerfið og margir tala um að einbeiting verði betri. Við reglulega ástundun upplifir þú einnig aukna orku, vinnur vel með streitu og æfir stöðugt þrautseigju.
Fjöldi erlendra rannsókna hafa sýnt fram á jákvæð áhrif náttúruupplifunar á heilsu og vellíðan og nýlegar rannsóknir á köldum sjóböðum benda meðal annars til þess að þau geti haft góð áhrif á þunglyndi. Losun gleði- og vellíðunarhormóna eflist við sjóböðin og við upplifum sigur- og sæluvímu. Sýnt er að kuldaþjálfun vinni einnig með verki og bólgur í líkamanum og hafi góð áhrif á blóðsykursstjórnun. Dr. Susanne Söberg má helst nefna sem upplýsingaveitu hvað varðar rannsóknir á kuldaþjálfun, en hún hefur gert rannsóknir á áhrifum kulda og hita á líkama og líðan. Við mælum með því að áhugasamir skoði heimasíðuna hennar, en þar er að finna nýjustu rannsóknir á áhrifum kuldaþjálfunar og nýlegan fyrirlestur sem hún flutti á ráðstefnu í Hörpu á síðasta ári. www.soeberginstitute.com. Með auknum áhuga á köldum sjóböðum er einnig von til þess að frekari rannsóknir á áhrifum kuldaþjálfunar og sjóbaða verði gerðar, en þar til er best að stunda rannsóknir á sjálfum sér, prufa sig áfram og rannsaka hvort sjóböðin hafi mögulega jákvæð áhrif á þína heilsu og líðan.
Glaðari þú sjóbaðsleikjanámskeið
Næsta sjóbaðsleikjanámskeið Glaðari þú hefst í september 2024 og stendur yfir í 4 vikur. Við böðum saman þrisvar sinnum í viku og leggjum mikla áherslu á að öll sem sækja hjá okkur námskeið stýri sinni vegferð sjálf. Við sýnum okkur mildi, æfum okkur að hlusta á líkamann, hlustum á andlega líðan og gerum aðeins eins mikið og okkur langar sjálf til hverju sinni. Allt þetta fer fram með leik og gleði að leiðarljósi. Námskeiðin eru fyrir alla sem hafa áhuga á að rannsaka á eigin skinni hvað kuldaþjálfun getur gert fyrir líkama og líðan.
Vilt þú koma út að leika?
- Hafðu samband hér: gladari.namskeid@gmail.com
- Facebooksíða: https://www.facebook.com/gladari.namskeid
https://youtube.com/shorts/d74PP48s0xc?si=mYtgFP_D32aKCKII