Svitakirtla graftrarkýli, HS, (hidradenitis suppurativa)

Húð Húðsjúkdómar

HS er algengur langvarandi sjúkdómur sem fáir þekkja til. Út frá rannsóknum á vestrænum löndum ættu að minnsta kosti 1200 manns að vera með HS á Íslandi. Líklega fleiri konur en karlar. Stærsti áhættuþáttur eru erfðir, reykingar og offita.

Þótt nákvæm orsök sjúkdómsins sé ekki þekkt þá er óhætt að lýsa honum sem teppu í líffæri sem sameinar hársekk, fitukirtil og svitakirtil. Þessi líffæri eru í húðinni í nárum og handarkrikum. Annarsstaððar á líkamanum er hársekkur og fitukirtill saman og svitakirtill opnast beint út á húðina.

Þegar framleiðsla á fitu og svita er stífluð myndast blöðrur fullar af vökva í húðinni eða í fitulaginu undir húðinni. Mjúkur fituvefur undir húðinni í nárum og holhöndum leyfir oft þessum blöðrum að fyllast allt að stærð hænueggs. Þegar slíkt magn vökva safnast fyrir án þess að geta runnið burt líður yfirleitt ekki á löngu áður en baktería tekur sér bólfestu og sýkir innihaldið sem þar með er orðið að greftri. Þetta hefur í för með sér miklar bólgur og útþenslu á vökvanum sem er mjög sársaukafullt. Viðkomandi á erfitt með að ganga eða sitja. Ef ekkert er gert springur þetta kýli út á yfirborðið í handarkrika eða nára og getur innihaldið verið lengi að leka út og í versta falli lekur það af og til dögum saman.

Það sem ruglar greiningu og meðferð er að alvarleiki sýkinganna er allt frá litlum bólulíkum breytingum yfir í versta formið sem lýst er hér að ofan. Þetta þýðir að meðferð sjúkdómsins er algerlega einstaklingsbundin. Meðferðarleiðbeiningar gera ráð fyrir þessu. Oft er nóg að fylgjast með og gefa sýklalyf þegar sýkingarnar koma upp og í versta falli brottnám kýlisins og jafnvel öflug langvarandi bóguminnkandi meðferð. Mikilvægt er að greina versta form sjúkdómsins tímanlega til að forðast óafturkræfar breytingar sem fylgja áralangri bólgu og endurteknum sýkingum. Þessi hópur ætti að vera í eftirliti hjá læknum með sérþekkingu á sjúkdómnum. Það er augljóst að virkur sjúkdómur hefur mikil áhrif á sjúklinginn, getur leitt til félagslegrar hlédrægni og er hindrandi í nánum samböndum.

Meðferð

Ef sjúklingur reykir er ráðlegt að hætta, reykingar eru stærsti áhættuþátturinn. Eins og áður segir eru sýklalyf, oftast breiðvirk algengasta meðferðin oft í langan tíma. Einnig eru gerðar smærri eða stærri aðgerðir á blöðrunum. Ef sýnt er að stefni í alvarlegan sjúkdóm fær viðkomandi meðferð með sterku bólgueyðandi lyfi, líftæknilyfi. Þessi meðferð getur skipt sköpum þótt sjúklingurinn losni sjaldnast alveg við einkennin. Markmið meðferðarinnar er að sjúklingur sé með sem minnst einkenni og geti lifað eðlilegu lífi.

Baldur Tumi Baldursson, húð- og kynsjúkdómalæknir