Fótsveppir

Algengir kvillar

Fótsveppir eru algengur kvilli, einkum hjá fullorðnu fólki. Þeir fá helst fótsveppi sem nota þröngan skófatnað. Algengustu einkennin eru að húðin flagnar milli tánna og þessu fylgir kláði og sviti milli táa.

Fótsveppir eru algengur kvilli, einkum hjá fullorðnu fólki. Þeir fá helst fótsveppi sem nota þröngan skófatnað. Algengustu einkennin eru að húðin flagnar milli tánna og þessu fylgir kláði og sviti milli táa. Ysta lag húðarinnar verður hvítt og "soðið" undan svita og vatni (támeyra). Stundum er húðin sprungin, oftast við litlutána eða á hælunum. Sveppirnir geta einnig lagst á neglurnar sem þykkna og gulna. Auðvelt er að villast á fótsveppum og öðrum kvillum, til dæmis exemi eða psoríasis. Ef einkennin eru ekki eins og lýst var hér að ofan skaltu ekki reyna meðferð á eigin spýtur fyrr en læknir hefur staðfest að hér sé í raun og veru um fótsveppi að ræða.

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?

  • Ef barn yngra en tíu ára fær einkenni sem líkjast fótsveppum.
  • Ef óþægindin hverfa ekki við meðferð.
  • Ef sýkingin er komin í neglurnar.
  • Ef ráðin hér að neðan koma þér ekki að gagni.


Hvað get ég gert?
Fótsveppir þrífast best í raka og hlýju. Gættu þess því að fætur þínir séu ávallt svo þurrir og svalir sem framast er unnt. Hirtu fætur þína vel. Skiptu um sokka daglega. Notaðu helst bómullarsokka og þvoðu þá á 60°C, því að sveppirnir lifa af þvotta við lægri hita. Forðastu þétt gerviefni sem eykur fótrakann. Forðastu að nota þétta og lokaða skó. Ef þér hættir til að fá fótsveppi skaltu ekki klæðast stígvélum, þéttum og uppháum skóm eða þéttum íþróttaskóm lengur en bráð nauðsyn krefst. Ef þú kemst ekki hjá því að nota slíka skó skaltu láta loft leika um fæturna nokkrum sinnum á dag.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?
Ef sveppasýkingin einskorðast við bilið milli tánna nægir oft eigin meðferð. Á boðstólum eru ýmis ágæt lyf sem fást án lyfseðils: Daktacort, Lamisil og Pevaryl. Hægt er að fá sveppalyf sem lausn eða krem. Berðu lyfið á stærra svæði en bara fótsveppina sjálfa því að sveppirnir geta verið til staðar þótt engin ummerki þeirra sjáist. Venjulega láta sveppirnir undan strax að nokkrum dögum liðnum en til þess að draga úr líkum á að sveppirnir taki sig upp á ný ætti að nota lyfið eins lengi og leiðbeiningarnar segja til um.

Daktacort og Pevaryl við fótsveppum notast bæði kvölds og morgna. Lamisil krem er aðeins borið á einu sinni á dag. Lamisil Once er notað aðeins einu sinni samkvæmt leiðbeiningum.

Lamisil er sennilega besti kosturinn en meðferð með því stendur aðeins í eina viku (nema Lamisil Once sem er aðeins notað einu sinni). Önnur sveppalyf þurfa lengri tíma til verkunar. Það sem greinir Lamisil frá öðrum sveppalyfjum er að það hefur sveppadrepandi verkun og auk þess vara áhrif þess nokkra hríð eftir að meðferð lýkur. Daktacort og Pevaryl eru sveppaeyðandi eða sveppaheftandi lyf.

Daktacort er notað ef mikill kláði fylgir fótsveppunum. Þetta lyf er samsett og inniheldur 1% hýdrókortisón sem slær fljótt á kláðann, en auk þess efni sem verkar á sveppina. Ef þú finnur enn fyrir óþægindum viku eftir að meðferð með Daktacort lýkur skaltu ráðfæra þig við lækni. Í fáeinum tilvikum kemur upp erting í húðinni við meðferðina. 

Hvernig get ég varist smiti?

Ef þú reynir að forðast fótsvita dregur þú mjög úr líkum á því að fá fótsveppi. Forðastu þétta skó og gúmmístígvél.