Sveppir í húð á fótum

Húðsjúkdómar

  • Fotasveppur

Ýmsar örverur lifa í og á líkama okkar undir eðlilegum aðstæðum en valda okkur ekki skaða, og í sumum tilvikum eru þær beinlínis gagnlegar. Í öðrum tilvikum geta örverur fjölgað sér um of og valda þá sýkingum sem geta skaðað okkur. Á meðal þessara örvera eru ýmsar bakteríur og sveppir.

Orsakir, tíðni og áhættuþættir
Ýmsar örverur lifa í og á líkama okkar undir eðlilegum aðstæðum en valda okkur ekki skaða, og í sumum tilvikum eru þær beinlínis gagnlegar. Í öðrum tilvikum geta örverur fjölgað sér um of og valda þá sýkingum sem geta skaðað okkur. Á meðal þessara örvera eru ýmsar bakteríur og sveppir.

Skipta má sveppum á líkama okkar í húðsveppi (dermatophytes) sem orsaka fótsveppi og gersveppi (t.d. candida albicans), en þeir síðarnefndu orsaka sjaldan fótsveppi. Oftast sjást fótsveppir hjá yngra fólki en þeir eru þó frekar sjaldgæfir fyrir kynþroska. Af sveppasýkingum í húð eru fótsveppir algengastir. Oft eru aðrar sveppasýkingar samtímis til staðar, svo sem sveppir í nára eða naglasveppir.

Sveppirnir þurfa hita og raka til að þrífast vel. Slíkar aðstæður eru t.d. til staðar í nára og á fótum, sérstaklega milli táa. Gott hreinlæti og þurr húð á fótum og milli táa dregur þannig úr líkum á fótsveppum. Dæmi um aðstæður sem auka líkur á fótsveppum eru m.a. lokaðir skór, jafnvel íþróttaskór, langvarandi raki á húð t.d. eftir síendurtekin böð, en einnig má nefna lítil sár eða sprungur t.d milli táa, við neglur eða á iljum. Í gegnum slík sár komast sveppir auðveldar inn í húðina og valda þá sýkingu.

Könnun sem framkvæmd var hérlendis á sundstöðum sýndi að fjórði hver karlmaður og um 15% kvenna voru með staðfestar sveppasýkingar í tánöglum. Ef eingöngu var litið til einkenna sem benda eindregið til sveppasýkinga, þó ekki væri hægt að staðfesta sýkinguna, var þessi tala 42% hjá körlum og 35% hjá konum. Nýleg könnun á meðal atvinnumanna í körfubolta í Bandaríkjunum (NBA) sýndi að 89% af leikmönnunum fengu sveppasýkingar í táneglur einhvern tíma á ferlinum. Eru miklar líkur á að slíkar sýkingar dragi nokkuð úr leikgetu þeirra. Sveppasýkingar geta verið smitandi við beina snertingu sýkts svæðis eða við notkun skófatnaðar og sokka sem eru með sveppum í. Sama gildir um gólf í sturtuklefum, búningsherbergjum og umhverfi sundlauga. Til að slíkt smit geti átt sér stað þarf húðin að vera móttækileg eins og áður er sagt. Fótsveppir eru oft langvarandi vandi og koma iðulega aftur þó að meðferð heppnist vel í upphafi.

Fyrirbyggjandi aðgerðir
Gott almennt hreinlæti er mikilvægt, en sérstaklega þarf að halda fótum þurrum og þurrka sér vel einnig milli táa. Mikilvægt er að skipta daglega um sokka. Þvo þarf handklæði á milli notkunar en sveppir þola ekki þvott við 60°C hita með þvottaefni. Í sumum tilvikum má nota púður á iljar og á milli táa, en það dregur í sig raka. Einnig er til púður sem inniheldur sveppalyf og getur það gert frekara gagn. Þurrkandi púður á fætur á einkum við um þá sem stunda almenna baðstaði og íþróttasali eða fá oft sveppasýkingar. Oft er ráðlagt að nota baðtöfflur þegar farið er í sturtu og í búningsklefum. Gagnsemi þess er þó ekki sönnuð. Skófatnaður skal vera þannig að hann lofti vel. Gott getur verið að skipta um skó daglega þannig að þeir nái að þorna vel á milli notkunar.

Einkenni fótsveppasýkingar 

  • Kláði, sviði, stingir í húð á þeim stöðum sem sýkingin hefur náð fótfestu.
  • Rauð útbrot, lítlar bólur, flögnun á iljum og hælum, í lófum, á svæði milli táa og fingra og í nöglum
  • Roði og bólga í húð
  • Blöðrur eða opin húð, vessandi útbrot , skorpa/hrúður
  • Þurrkur með sprungum og hreistri.
  • Litabreytingar með þykknun á nöglum.

Greiningaraðferðir
Greiningin byggir fyrst og fremst á útliti húðarinnar.

  • Skafsýni frá húð tekið í svepparæktun.
  • Skoðun á sýni í smásjá en sveppaþræðir sjást oftast vel við slíka skoðun.
Meðferð

Stundum læknast fótsveppir af sjálfu sér við að húðinni er haldið þurri, þó á þetta sjaldan við um naglsveppi. Venjulega eru notaðir sveppaáburðir í kremformi. Slík krem eru borin á húðina milli táa og á iljar í 1-3 vikur, eftir því hversu útbreidd sýkingin er og hvaða tegund áburðar er notuð. Ef sýking á iljum er útbreidd dugar meðferð með kremi ekki alltaf og þarf þá að gefa töflumeðferð í 1- 4 vikur. Almennt er árangur meðferðar góður en sýkingarnar koma oft aftur, eins og nefnt er að ofan.

Jón Hjaltalín Ólafsson, húðsjúkdómalæknir og Bárður Sigurgeirsson, húðsjúkdómalæknir.