Líkþorn og inngrónar neglur

Algengir kvillar

Líkþorn er þykknun í hornlagi húðar sem getur myndast á fætinum þar sem lengi og mikið mæðir á, til dæmis á tá sem nuddast í of þröngum skóm.

Líkþorn er þykknun í hornlagi húðar sem getur myndast á fætinum þar sem lengi og mikið mæðir á, til dæmis á tá sem nuddast í of þröngum skóm. Herslið er oft með fleyg í miðju sem gengur niður í leðurhúðina og veldur sársauka þegar þrýstir á. Líkþorn má yfirleitt rekja til notkunar nýs eða illa passandi skófatnaðar. Einnig getur það stafað af óeðlilega háum skóhælum, þar sem slíkir hælar auka þrýstinginn á fótinn. Fólk fær helst inngrónar neglur ef það notar of þrönga skó eða ef neglur eru skakkt klipptar. Neglurnar geta þá vaxið þannig að þær skerast inn í húðina og valda ertingu í naglbeðnum. Húðin bólgnar og verður aum og oft myndast sár sem ígerð getur auðveldlega hlaupið í.

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvað get ég gert?
Ef þú ert með líkþorn getur þú reynt eftirfarandi meðferð:

  • Baðaðu fætur þína í ylvolgu vatni í 15-20 mínútur.
  • Reyndu að sverfa líkþornið með fótaraspi.
  • Þerraðu fæturna og berðu síðan vörtueitur frá Trimb á líkþornið (gegn líkþornum og vörtum eru oft notuð sömu lyf sem innihalda jafnframt efni sem hafa ætandi og hornhúðarleysandi áhrif).
  • Endurtaktu meðferðina daglega eða annan hvern dag.

Forðastu að láta vörtueitrið á heilbrigða húð umhverfis vörtuna/líkþornið þegar þú berð það á. Þú getur létt þrýstingi af líkþorninu með því að festa hring úr filti umhverfis líkþornið og þannig dregið úr sársauka en ýmsar tegundir líkþornaplástra eru fáanlegar. Ef þú hefur inngrónar neglur skaltu nota skó sem passa vel og eru hæfilega rúmir. Hirtu fætur þína sérlega vel til þess að draga sem mest úr hættu á sýkingu. Þvoðu fæturna vandlega með sápu og vatni. Þú getur létt á þrýstingi með því að láta dálítinn bómullarhnoðra sem gjarnan má væta í spritti, við naglröndina. Ef sýking hefur hlaupið í inngróna nögl getur komið að gagni að væta tána með bakteríueyðandi efni, t.d. klórhexidíni eða Sótthreinsunarspritti.

Hvenær á ég að leita hjálpar?
Leitaðu ráða hjá lækni eða fótsnyrtifræðingi ef þú finnur fyrir langvarandi eða þrálátum óþægindum vegna líkþorna eða inngróinnar naglar. Ráðfærðu þig líka við lækni ef þú ert með sykursýki. Við þær aðstæður er ekki ráðlegt að reyna að ráða bót á líkþorni eða inngróningi naglar á eigin spýtur vegna hættu á að fá sár sem erfitt getur reynst að græða.

Hvað get ég gert í forvarnarskyni?
Líkþorn
Haltu þykknun í húðinni niðri með því að fara í fótabað, helst vikulega. Notaðu fótarasp að loknu baðinu. Notaðu aldrei þrönga skó eða skó með ójöfnum sem þrýsta á ilina.

Inngróin nögl

Ef þú vilt komast hjá því að fá inngróna nögl er vænlegast að klippa neglurnar beint og ekki of nálægt kviku. Naglröndin á að vera framan við naglbeðinn. Gott er að sverfa af hvöss horn og brúnir. Notaðu hæfilega rúma skó og ekki of þrönga sokka.