Hjartabilun

Er hægt að minnka hættu á hjartabilun með því að breyta lifnaðarháttum sínum? 

Hjarta– og æðakerfið

  • Hjartabilun

Þeir sem hafa hjartabilun eru ekki einir á báti því að gera má ráð fyrir að 3-5000 manns þjáist af þessum sjúkdómi hér á landi. Hjartabilun er ein af algengustu ástæðum fyrir sjúkrahúsinnlögn hjá fólki yfir 65 ára og algengi (tíðni) hjartabilunar virðist fara vaxandi.

Það getur tekið mörg ár fyrir sjúkdóminn að þróast og þeir sem eru í áhættuhópi geta komið í veg fyrir sjúkdóminn eða tafið þróun hans með breyttum lifnaðarháttum.

Hjartað
Hjartað er undravert líffæri sem heldur blóðrásinni gangandi með því að dragast saman um 100 þúsund sinnum á sólarhring. Til að geta dælt blóði verður hjartað að yfirvinna viðnámið í æðakerfinu og við það myndast blóðþrýstingurinn. Hjartavöðvinn sér um þessa starfsemi og til að næra hann eru sérstakar æðar, kransæðarnar. Í hjartanu eru einnig lokur sem hindra blóðið í að renna til baka, milli hjartahólfa eða úr slagæðunum aftur inn í hjartað. Einnig er í hjartanu leiðslukerfi sem flytur boð um hjartað með miklum hraða og samhæfir þannig samdrátt í hinum ýmsu hlutum þess. Vinstri hluti hjartans tekur við súrefnisríku blóði frá lungunum og dælir því út í ósæðina (meginslagæð líkamans) en þaðan dreifist blóðið um allan líkamann. Hægri hluti hjartans tekur við bláæðablóði frá öllum líkamanum og dælir því út í lungnaslagæðina sem dreifir því um lungun. Allt miðar þetta að því að halda blóðrásinni gangandi en blóðið flytur súrefni og næringarefni til vefja líkamans og kolsýru og úrgangsefni frá vefjunum.

Orsakir
Allir þættirnir sem lýst er að ofan geta farið úrskeiðis. Kransæðarnar geta skemmst (kalkað) og þá fáum við kransæðasjúkdóm, viðnámið í æðakerfinu getur aukist og þá fáum við háan blóðþrýsting, hjartavöðvinn getur orðið sjúkur, hjartalokurnar geta skemmst og farið að leka og leiðslukerfið getur truflast með þeim afleiðingum að við fáum hjartsláttartruflun. Allir þessir sjúkdómar geta skemmt hjartað og að lokum valdið hjartabilun. Algengustu orsakir hjartabilunar eru kransæðasjúkdómur, hár blóðþrýstingur og hjartavöðvasjúkdómur en hjartsláttartruflanir og lokugallar eru sjaldgæfari. Hjartabilun einkennist af því að hjartað getur ekki dælt nægjanlega miklu blóði og við það gerist eftirfarandi: Blóð safnast fyrir í bláæðunum, vökvi safnast fyrir í líkamanum og það veldur m.a. ökklabjúgi eða lungnabjúgi, hjartað fer að slá hraðar og það stækkar (þenst út) og vefir líkamans fá ekki nóg af súrefni og næringu. Við hjartabilun myndast vítahringur sem felst í því að þegar blóðrásin minnkar sendir heilinn boð um að minnka vökvaútskilnað í nýrum, auka hjartsláttartíðni og auka æðavinám og þar með hækka blóðþrýsting. Þetta eru sams konar boð og send eru við blóðmissi og í slíku tilviki eru þau gagnleg en við hjartabilun gera þau hins vegar illt verra og gera hjartanu, sem þegar er veiklað, enn erfiðara fyrir.

Einkenni
Sjúkdómseinkennin geta verið með ýmsu móti og oftast koma þau hægt og sígandi á löngum tíma. Helstu óþægindin sem fylgja hjartabilun eru þreyta, andþrengsli sem eru verst í liggjandi stöðu, ökklabjúgur, þyngdaraukning vegna vökvasöfnunar og erfiðleikar við að sofa og hugsa skýrt. Önnur algeng einkenni eru hjartsláttur og blámi á húð, sem oft er áberandi á vörum. Meðferð er fólgin í hvíld, sérstöku mataræði og lyfjum. Hvíld er mikilvæg í upphafi, meðan óþægindin eru veruleg, en þegar ástandið fer að batna er venjulega reynt að hefja stigvaxandi líkamsþjálfun. Rétt er að draga úr saltneyslu eins og unnt er, án þess að fara út í öfgar.

Lyf
Lyfin eru af ýmsu tagi, sum víkka æðar og lækka þar með blóðþrýstinginn sem minnkar álag á hjartað, önnur eru þvagræsilyf sem auka útskilnað vatns og salta í nýrum og einnig eru til lyf sem auka samdráttarkraftinn í hjartavöðvanum. Meðferð við hjartabilun gengur oftast vel, a.m.k. þegar litið er til skamms tíma (fáein ár). Langtímaárangur er ekki eins góður og margir deyja að lokum úr sjúkdómnum eða fylgikvillum hans. Sífellt er verið að þróa ný lyf við hjartabilun og núna eru m.a. á leiðinni nokkur spennandi lyf sem auka samdráttarkraft hjartans.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Þeir sem hafa fengið hjartabilun eða eru í hættu að fá sjúkdóminn geta dregið úr hættunni að fá hann (aftur) með fyrirbyggjandi aðgerðum. Mikilvægt er að taka reglulega, samkvæmt fyrirmælum læknis, lyf sem halda í skefjum áhættuþáttum eins og t.d. háum blóðþrýstingi og hárri blóðfitu. Margir þurfa að breyta um mataræði til að lækka blóðfitu og til að léttast eða halda þyngdinni í skefjum. Best er að borða fjölbreyttan mat með sem minnstri fitu og mikið af grænmeti og ávöxtum. Þeir sem eru með kransæðasjúkdóm geta einnig fengið mikla bót af aðgerðum sem auka blóðflæði um kransæðarnar. Hér er átt við hjáveituaðgerðir (á ensku bypass) og kransæðavíkkanir.

Magnús Jóhannsson, læknir.