Hvert er hlutverk húðarinnar?

Húðsjúkdómar

  • Hudin

Húðin er stærsta líffæri líkamans og gegnir margþættu hlutverki. Hún er hjúpur sem ver okkur fyrir skemmdum, ytra áreiti, er hitastillir, losar okkur við úrgangsefni (svita), er skynfæri, framleiðir D-vítamín og hindrar vökvatap frá líkamanum.

Hvernig er húðin byggð upp? 

Húðin er byggð úr þremur lögum.

  1. Ysta lagið er yfirhúð (epidermis). Það er örþunnt (eins og pappírsblað) og er byggt upp af húðfrumum og litarfrumum, sem framleiða litarefni (melanin), sem gefur húðinni lit.
  2. Leðurhúðin (dermis) er miðlag húðar. Þetta er stoðvefslag, sem inniheldur æðar, taugar og bandvef. Hársekkir, fitu- og svitakirtlar eru einnig í þessu lagi. Sólargeislun á húðina skemmir bandvefsþræðina í leðurhúðinni og hefur þar með afgerandi áhrif á hrukkumyndun í húðinni.
  3. Fitulagið er þriðja og neðsta lagið. Hlutverk þess er fyrst og fremst einangrun og orkubirgðir.