Frunsur

Algengir kvillar

Frunsur (áblástur) lýsa sér með útbrotum þéttskipaðra vessafylltra blaðra sem mynda sár á vörum og við munn og stafa af sýkingu af völdum herpesveira.

Frunsur (áblástur) lýsa sér með útbrotum þéttskipaðra vessafylltra blaðra sem mynda sár á vörum og við munn og stafa af sýkingu af völdum herpesveira. Þessar veirur geta blundað í líkamanum langtímum saman án þess að valda nokkrum óþægindum. Veiran sest að í taugarótum en getur brotist fram í húðfrumur og orsakað endurtekin útbrot. Það gerist þó helst ef viðkomandi einstaklingur kvefast, reynir of mikið á sig eða sólbrennur og hjá konum getur veiran látið á sér kræla við tíðir. Óþægindin byrja með stingjum og kláða, síðan kemur fram roði, þroti og útbrot sem verða að vessafylltri blöðru. Blöðrurnar springa oft og eftir situr sár. Sárin gróa venjulega á nokkrum vikum. Frunsurnar koma venjulega fram aftur og aftur á sama stað, oftast á varir eða í nánd við þær. Herpesveiran getur legið mislengi í dvala.

SPURNINGAR OG SVÖR

Hvenær á ég að leita til læknis?

  • Ef sárið grær óvenjulega seint.
  • Ef óþægindin taka sig upp aftur og aftur.
  • Ef þú hefur farið eftir þeim ráðum sem hér eru gefin og þau koma ekki að gagni.

Hvað get ég gert?
Stilltu þig um að snerta frunsurnar því að þær eru smitandi. Frunsurnar eru mest smitandi á því stigi sem einkennist af roða, þrota og útbrotum. Yfirleitt hverfa frunsurnar á 7-10 dögum. Oft getur hjálpað að kæla frunsuna með ísmola, einkum í fyrstu.

Get ég fengið lyf án lyfseðils?
Zovir krem inniheldur virka efnið acíklóvír sem fæst án lyfseðils. Einnig er hægt að fá Vectavir krem sem inniheldur virka efnið pensíklóvír og hefur svipaða verkun. Ef þessi krem eru notuð strax og vart verður við fyrstu einkenni frunsumyndunar, æðaslátt, ertingu eða sviða, er hægt að hægja á fjölgun veirunnar. Þannig er mögulegt að stöðva herpesútbrot með Vectavir eða Zovir kremi og takmarkast þá frunsan við þær frumur sem þegar eru sýktar. Þeir sem byrja snemma að nota kremið fá minni sár sem gróa fyrr og smitunartímabilið styttist. Engu að síður verður herpesveiran ávallt til staðar í taugarótum og getur valdið frunsu síðar. Bæði lyfin virka best um leið og einkenna verður vart en Vectavir er einnig hægt að nota eftir að blöðrur hafa myndast. Zinkoxíð pasta, frunsulausn eða áburður gegn frunsum geta dregið úr óþægindum sem fylgja frunsu. Þegar sárið fer að gróa er gott að bera mýkjandi krem á það.

Hvað get ég gert í forvarnarskyni?

Forðastu að koma við frunsurnar. Slepptu kossum og munnmökum meðan þú finnur fyrir óþægindum til þess að komast hjá því að smita aðra. Þegar sárin hafa gróið smitar þú ekki lengur. Ef þér hættir til þess að fá frunsur í sól skaltu bera sterka sólvörn á varirnar þegar þú ert úti í sterkri sól. Skiptu um tannbursta. Herpesveiran getur tekið sér bólfestu í tannburstanum, verið þar í marga daga og þannig smitað þig aftur þegar núverandi frunsa er gróin.

Fáðu faglega ráðgjöf hjá lyfjafræðingi um val á lyfjum og notkun þeirra.