GlucaGen

Briskirtilshormónar | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Glúkagon

Markaðsleyfishafi: Novo Nordisk | Skráð: 29. júní, 1977

GlucaGen er blóðsykurhækkandi lyf notað við of mikilli lækkun á blóðsykri hjá sykursjúkum. Ástæður blóðsykurfalls geta stafað af t.d. of mikilli insúlíngjöf eða komið fram sé máltíð sleppt. Við blóðsykurfall verður einstaklingur mjög slappur og getur jafnvel misst meðvitund. Sykursjúkir sem nota insúlín eiga alltaf að ganga með glúkagon á sér og kenna þarf ættingjum og/eða vinum hvernig á að nota það í neyðartilfelli. Glúkagon er aðeins til sem stungulyf og eftir inngjöf lyfsins á sjúklingur að leggjast á hliðina ef hann skyldi þurfa að kasta upp. Þegar sjúklingur er aftur kominn með fulla meðvitund og getur kyngt á hann að borða eins og læknir hefur gefið fyrirmæli um. Glúkagon er einnig notað á sjúkrahúsum til að auðvelda rannsóknir á maga og skeifugörn, en það dregur líka úr hreyfingum í meltingarvegi.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Stungulyfsstofn og leysir. Notað undir húð eða í vöðva við blóðsykurfalli og í æð eða vöðva þegar notað við sjúkdómsgreiningar.

Venjulegar skammtastærðir:
Fullorðnir og börn eldri en 6 ára eða þyngri en 25 kg: Við blóðsykurfalli er gefið 1 mg með stungu undir húð, í vöðva eða í æð. Endurtaka má lyfjagjöf eftir 10-15 mín. ef sjúklingur kemst ekki til meðvitundar. Börn yngri en 6 ára eða léttari en 25 kg: 0,5 mg í senn. Lausnina má ekki nota ef hún er gruggug.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Hámarkssvörun við blóðsykurfalli fæst á 5-20 mín.

Verkunartími:
10-40 mín.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Gættu þess að borða skömmu eftir að lyfið er gefið til að koma í veg fyrir annað blóðsykurfall.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum á köldum stað (2-8°C) þar sem börn hvorki ná til né sjá. Lyfið má ekki frjósa. Lyfið geymist í 18 mánuði við stofuhita. Þegar búið er að blanda saman þurrefni og leysi verður að nota lyfið strax.

Ef skammtur gleymist:
Lyfið er ekki notað reglulega og aðeins ef blóðsykurfall verður.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Lyfið er ekki notað reglulega.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Ekki er vitað um skaðleg áhrif vegna of mikillar inngjafar lyfsins. Best er að hafa samband við lækni ef stór skammtur af lyfinu er gefinn inn.

Langtímanotkun:
Glúkagon er aldrei notað reglubundið í langan tíma. Það er aðeins notað þegar þörf er á við blóðsykurfalli eða inni á sjúkrahúsum við rannsóknir.


Aukaverkanir

Aukaverkanir af völdum glúkagons eru sjaldgæfar. Algengustu aukaverkanir eru ógleði og uppköst sem koma helst fram ef lyfið er gefið mjög hratt eða í stórum skömmtum.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar      

Milliverkanir

Insúlín upphefur áhrif glúkagons.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með æxli í nýrnahettum

Meðganga:
Engin þekkt áhætta er af notkun lyfsins á meðgöngu.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk en í venjulegum skömmtum er ólíklegt að það hafi áhrif á barnið.

Börn:
Skammtar eru háðir þyngd eða aldri.

Eldra fólk:
Venjulega skammtastærðir.

Akstur:
Lyfið hefur ekki áhrif á aksturshæfni en eftir blóðsykurfall ætti viðkomandi ekki að aka bíl vegna áhrifa blóðsykurfallsins og hættu á öðru slíku.

Áfengi:
Áfengi á ekki að nota með þessu lyfi frekar en öðrum sykursýkilyfjum. Sykursjúkir sem nota insúlín ættu að forðast neyslu áfengis því það eykur sykurþörf líkamans.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.