Jafnréttis- og jafnlaunastefna

Lyfja leggur áherslu á að sérhver starfsmaður fyrirtækisins sé metinn á eigin forsendum, hafi jafna möguleika og njóti sömu réttinda í starfi og til starfsframa óháð kyni, aldri, uppruna eða lífsstíl. 

Tilgangur og markmið

Lyfja leggur áherslu á að allt starfsfólk fyrirtækisins sé metið á eigin forsendum, hafi jafna möguleika og njóti sömu kjara og réttinda í starfi og til starfsframa óháð kyni, aldri, uppruna eða lífsstíl. Með þessu móti getur starfsfólk starfað í þeirri vissu að hver og einn starfsmaður fyrirtækisins njóti sömu virðingar, sé eingöngu metinn út frá málefnalegum sjónarmiðum og hafi jöfn tækifæri innan fyrirtækisins.

Jafnréttis- og jafnlaunastefna Lyfju felur í sér skuldbindingu um að fylgja öllum þeim lagalegu kröfum sem og öðrum kröfum er varða meginregluna um að kynjununum skulu greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.

Gildissvið og ábyrgð

Jafnréttis- og jafnlaunastefna Lyfju nær til allrar starfsemi og starfsfólks fyrirtækisins. Stjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á framgangi jafnréttismála, en endanleg ábyrgð er hjá framkvæmdastjórn. Mannauðsstjóri ber ábyrgð á upplýsingagjöf til framkvæmdastjórnar og annarra stjórnenda varðandi framgang jafnréttisstefnu og viðheldur upplýsingum um þætti sem varða jafnréttismál.

Ráðningar og ný störf

Við ráðningu skal hæfasti umsækjandinn ætíð valinn útfrá málefnalegum sjónarmiðum svo sem hæfni, færni, menntun og reynslu. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið við val á umsækjendum.

Starfsþróun og endurmenntun

Starfsmenn skulu hafa jafna möguleika til að nýta hæfileika sína og þekkingu á sem bestan hátt ásamt því að hafa jöfn tækifæri til endurmenntunar og starfsþjálfunar.

 
Við úthlutun verkefna, tilfærslur í starfi eða tækifæri til að axla ábyrgð skal litið til faglegra sjónarmiða og skulu starfsmenn af því tilefni eingöngu metnir út frá eigin hæfni og frammistöðu með þarfir fyrirtækisins að leiðarljósi.

Launajafnrétti

Lyfja gætir fyllsta jafnréttis við ákvörðun launa og annarra starfskjara starfsmanna sinna. Við ákvörðun launa skal þess gætt að greidd séu jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar feli ekki í sér kynjamismunun, heldur séu rökstudd með skýrum rökum út frá verðmæti starfs.


Haustið 2015 fékk Lyfja jafnlaunavottun VR. Í febrúar 2018 fékk Lyfja síðan jafnlaunavottun Velferðarráðuneytisins og var á meðal tuttugu fyrstu fyrirtækja á Íslandi til að öðlast þá vottun.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Lyfja leggur áherslu á að starfsmenn geti fundið jafnvægi milli starfs og einkalífs eins og frekast er kostur. Lyfja reynir að koma til móts við þarfir starfsmanna varðandi sveigjanleika og hlutastarf eftir því sem kostur er til að auðvelda starfsmönnum að samræma starf sitt hjá fyrirtækinu og fjölskyldulíf. Í slíkum tilfellum er ætíð horft bæði til fjölskylduaðstæðna starfsmanns og þarfa fyrirtækisins með það að leiðarljósi að báðir aðilar njóti góðs af.

Starfsandi og samskipti starfsmanna

Mikil áhersla er lögð á jákvæðan starfsanda og góða líðan starfsmanna hjá Lyfju. Allir starfsmenn eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og að þeim sé ekki mismunað vegna bakgrunns síns, lífsstíls eða skoðana.


Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni og mismunun er með öllu óheimil og er ekki liðin. Telji starfsmaður sig verða fyrir slíku skal hann snúa sér til yfirmanns síns eða mannauðsstjóra sem styðja hlutaðeigandi til að leysa málin. Öll slík hegðun varðar áminningu eða brottrekstur úr starfi og er meðvirkni starfsmanna í slíkum málum fordæmd.

Kynning, árangursmat og eftirfylgni

Jafnréttisstefna Lyfju skal vera aðgengileg öllum starfsmönnum fyrirtækisins og vera kynnt nýjum starfsmönnum er þeir hefja störf hjá fyrirtækinu. Markvisst skal unnið að því að stefnunni sé framfylgt í hvívetna, að henni sé viðhaldið reglulega og markmiðum hennar sé náð. Markmið og aðgerðir tengdar jafnréttismálum og jafnréttisstefnu skulu útlistaðar í jafnréttisáætlun Lyfju.

Jafnréttisstefnuna skal endurskoða á minnst þriggja ára fresti.

Síðast uppfært 30. nóvember 2021