Hreyfing og mataræði, allra meina bót?

Hreyfing Næring

  • IStock-511479742

Það þarf ekki að vefjast fyrir neinum að hollt mataræði og reglubundin hreyfing eru megin stoðirnar í því að lifa heilbrigðu lífi. Það mætti bæta við andlegri vellíðan til að kóróna það sem þarf til að vera með allt á hreinu.

 Allt eru þetta atriði sem skipta verulegu máli og virka svo einföld og sjálfsögð, en þeir sem eru eldri en tvævetur vita að það er alls ekki raunin. Það er stöðugt verið að segja okkur hvað er hollt og hvað ekki, sérstaklega er verið að ginna fólk með skyndilausnum og sannfæra það um að með þessum eða hinum matarkúrnum eða æfingakerfinu muni allt breytast til hins betra.

Breytingar undanfarin ár

Þá má ekki gleyma því að þeir hinir sömu og hafa lifað tímana tvenna hafa heyrt slíkar ráðleggingar breytast í tímans rás. Einu sinni mátti ekki borða fitu, núna eiga allir að neyta smjörs, feitmetis og rjóma. Sykur er hið alræmda hvíta eitur auk þess að allar hveitivörur eru komnar á bannlista. Ekki má borða nema ákveðnar tegundir af ávöxtum samkvæmt sumum, þá helst ekki drekka ávaxtasafa nema í hófi og allra síst mjólk. Allt eru þetta ákveðnar öfgar þó vissulega sé það vel þekkt að ákveðnir einstaklingar geti verið með óþol eða jafnvel ofnæmi fyrir ákveðnum tegundum fæðu, þá liggur það í augum uppi að ekki er hægt að ætlast til þess að allir séu eins og geti nýtt sér sömu leiðbeiningar.

Hið sama gildir um hreyfinguna, þar höfum við fengið ýmis ráð í gegnum tíðina, sum byggja á rannsóknum, önnur meira á sölumennsku og hefur fólki verið talin trú um það að nýjasta æðið hverju sinni sé hið eina sanna. Á að þjálfa í hámarkspúls eða bara 80% af honum? Er best að brenna eingöngu, á að leggja áherslu á vöðvaþjálfun eða teygjur? Er skynsamlegt að þjálfa jafnvægið eða eitthvað annað og þannig mætti telja áfram. Eru einhver tæki betri en önnur, þarf ég einkaþjálfara og líkamsræktarstöð eða get ég gert þetta sjálf/ur? Svarið við öllum þessum spurningum er einfalt, sitt lítið af hverju !

Eltingarleikur

Þegar maður, í öllu stressinu sem daglegt líf flestra samanstendur af, er farinn að ofhugsa hlutina og taka um of mark á þeim ráðleggingum sem eru þarna úti auk þeirrar staðalímyndar sem allir verða að passa inn í þá er það ávísun á vandræði. Kvíði og spenna getur magnast upp, mikil samkeppni ríkir um það að líta sem best út og helst vera með sem flest járn í eldinum í einu. Það skilar sér oft í áhyggjum og svefnleysi sem svo eykur álagið á einstaklinginn, fylgikvillarnir eru fyrst og fremst vanlíðan sem er í raun andstæðan við það sem flestir eru að leita að.

Að þessu sögðu er það engu að síður staðreynd að við erum það sem við borðum og ef við hreyfum okkur ekki reglubundið þá er líklegt að líkami okkar refsi okkur fyrir það á einhverjum tímapunkti. Þá kemur að því að spyrja sig hvað er skynsamlegast að gera?

Jafnvægi er lykillinn

Ég er talsmaður jafnvægis og tel það í raun vera grundvallaratriði í öllum þeim þáttum sem að ofan eru taldir. Við getum ekki haft hugann stöðugt við það sem við erum að láta ofan í okkur, enginn endist á kúr. Það er því nauðsynlegt að þróa með okkur vanann að borða „rétt“ og þar liggur hundurinn grafinn. Það er líklega í lagi að borða sitt lítið af hverju ef maður passar skammtastærðir. Gott er að forðast það sem augljóslega fer illa í mann, en til þess að finna slíkt út er gott að halda matardagbók. Það má borða fitu og líka sykur, hvorugt er eitur nema í miklu magni, en saman getur það haft afdrifaríkar afleiðingar og í raun myndað ákveðna fíkn. Hið sama gildir um hreyfingu, hún verður að henta hverjum og einum og skapa ánægju, það er eina leiðin til að endast og að hún verði reglubundin. Streitulosun og tímastjórnun auk samveru við fjölskyldu og vini mun skila mestum árangri og skila andlegri vellíðan í samhengi við mataræðið og hreyfinguna. Þess utan er skynsamlegt að láta fylgjast með áhættuþáttum sínum miðað við aldur og kyn.

Teitur Guðmundsson, læknir

Greinin birt með góðfúslegu leyfi Doktor.is

Hvaða tillögur hafið þið fyrir örvandi lyf vegna orkuleysis og krabbameins?


Nú get ég ekki svarað þessari spurningu almennilega þar sem ég veit ekki hvort eða hvaða lyfjum þú ert á vegna krabbameinsins...

SKOÐA NÁNAR

Hvað er íslenska heitið fyrir Activated Charcoal og er það selt á íslandi?

Íslenska heitið væri virkjuð kol. Einnig væri mögulegt að kalla þetta lyfjakol, en hér landi eru seld lyfjakol sem eru skráð sem lyf....               
Skoða nánar