Brjóstakrabbamein

Krabbamein

Brjóstakrabbamein er algengasta illkynja mein í konum, og af þeim krabbameinum sem greinast í konum er brjóstakrabbamein um þriðjungur.

Faraldsfræði
Í Bandaríkjunum einum er talið að um 175.000 konur muni greinast með krabbamein árið 2000.

Um 1% sjúklinga með brjóstakrabbamein eru karlmenn. Líkur á brjóstakrabbameini aukast með aldri og er algengara í hvítum konum en svörtum eða konum frá Asíu. Landfræðilega er sjúkdómurinn mun algengari í Danmörku, Hollandi, Sviss, Bretlandi og Bandaríkjunum en í Japan, Thailandi, Nígeríu og Indlandi svo dæmi séu tekin. Konur í hærri félags-fjármálalegum þrepum þjóðfélagsins eru í aukinni hættu á að fá sjúkdóminn. Brjóstakrabbamein er algengara í vinstra brjósti en því hægra.

Áhættuþættir
Brjóstakrabbamein hefur verið tengt mörgum áhættuþáttum svo sem erfða- og umhverfisþáttum, hormónum og næringu. Hinsvegar hafa um 75% kvenna með sjúkdóminn enga þekkta áhættuþætti.

Erfðaþættir eru taldir koma við sögu í einungis 5-7% tilvika. Genin BRCA1 og BRCA2 eru áhættuþættir fyrir brjóstakrabbamein sem og krabbamein í eggjastokkum. BRCA1 genið er staðsett á litningi 17, og hafa nú rúmlega 500 stökkbreytingar verið greindar í því. Talið er að kona sem hafi stökkbreytingu í BRCA1 hafi um 56-85% líkur á að fá brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni. Ævilíkur hennar á að fá eggjastokkakrabbamein eru lægri, eða um 15-45%.

Fjölskyldusaga er sterkur áhættuþáttur. Kona sem á fyrsta stigs ættingja er hefur greinst með brjóstakrabbamein (móðir, systir, dóttir) er þrefalt líklegri til að greinast með brjóstakrabbamein en sú sem ekki hefur slíka ættarsögu hafi ættingjarnir greinst með sjúkdóminn fyrir tíðahvörf. Greinist ættingjarnir eftir tíðahvörf er áhættan um 1.5 sinnum meðaláhætta.

Sum “góðkynja” ber í brjóstum hafa verið tengd aukinni áhættu. Þeirra á meðal eru “ductal hyperplasia”, “sclerosing adenosis”, atypical ductal/lobular hyperplasia” og “lobular carcinoma in situ”.

Kona sem hefur fyrri sögu um brjóstakrabbamein, eggjastokkakrabbamein, ristilkrabbamein eða legbolsslímhúðarkrabbamein er í aukinni áhættu á að fá brjóstakrabbamein.

Áhætta á brjóstakrabbameini eykst því lengur sem kona hefur tíðir, þ.e. því fyrr sem konur byrja að hafa á klæðum og því seinna sem þær fara í tíðahvörf því meiri er hættan. Þetta er sennilega vegna langvarandi hormónaáhrifa. Þannig hefur kona sem hefur tíðahvörf tvöfalda áhættu í samanburði við þá sem hefur tíðahvörf 55 ára. Full meðganga fyrir þrítugt minnkar líkur á brjóstakrabbameini sem og brjóstagjöf.

Geislun er áhættuþáttur fyrir brjóstakrabbamein eins og svo mörg önnur krabbamein. Konur sem urðu fyrir geislun vegna kjarnorkusprenginganna í Japan voru líklegri til að greinast með brjóstakrabbamein 15-20 árum seinna en aðrar konur. Einnig er örlítið aukin hætta hjá konum sem hafa fengið geislameðferð á brjóst t.d. vegna meðferðar á eitlakrabbameini.

Ekki er fullvíst að getnaðarvarnatöflur auka líkur á brjóstakrabbameini.

Tveir eða fleiri drykkir af áfengi á dag auka líkur á brjóstakrabbameini lítillega sem og offita og fituríkt fæði.

Einkenni
Ber í brjósti er algengasta einkenni brjóstakrabbameins. Góðkynja ástæður fyrir beri í brjósti eru þó margfalt algengari en illkynja mein (krabbamein). Hinsvegar, ber ávallt að útiloka illkynja mein, því vitað er að auðveldara er að lækna brjóstakrabbamein sem ekki hefur gefist tími til að sá sér til annarra líffæra. Frekari rannsóknir fela gjarnan í sér brjóstamyndatöku, brjóstaómun og jafnvel sýnatöku. Önnur óalgeng einkenni brjóstakrabbameins (1-2%) eru verkur, hrjúft yfirborð, útferð frá geirvörtu og roði.

Skimun og sjúkdómsgreining
Mælt er með sjálfsskoðun á 3-5 degi eftir tíðir. Um fimmtungur brjóstakrabbameina finnst við almenna læknisskoðun. Mælt er með brjóstamyndatöku annað hvert ár frá fertugu og árlega frá fimmtugu. Þessi skimun hefur sannad gildi sitt og bjargað lífi fjölda kvenna sem hafa verið einkennalausar við greiningu með staðbundinn sjúkdóm. Segulómun og aðrar aðferðir kunna að reynast hjálplegar í framtíðinni við athugun á beri í brjósti.

Forvarnir
Sífellt fleiri rannsóknir benda til að hæfileg líkamshreyfing, minni áfengis- og fituneysla minnki líkur á brjóstakrabbameini. Nýlega var sýnt fram á að lyfið tamoxifen minnkar líkur á brjóstakrabbameini um tæplega helming í konum sem hafa mikla áhættu á að fá sjúkdóminn. Útreikningar á þessari áhættu eru byggðar á svokölluðu Gail-líkani og er konum bent á að ráðfæra sig við lækni sinn um hugsanlegan ávinning af lyfjameðferð í forvarnarskyni.

Meinafræði
Flest brjóstakrabbamein eru annaðhvort upprunnin frá kirtilvef eða mjólkurgöngum.

Stigun, meðferð og horfur
Brjóstakrabbamein er flokkað í 4 stig eftir útbreiðslu sjúkdómsins. Líkur á lækningu fara mjög eftir stigi sjúkdómsins. 10 ára lífslíkur eru yfir 90% við stig I, en ekki nema um 10% við stig IV.

Meðferð er háð mörgum þáttum, m.a. stigun, tjáningu ýmissa þátta í æxlinu bæði hormónaþátta (ER/PR) og vaxtarþátta (HER2/neu). Gjarnan er beitt skurð-, geisla-, lyfja-, hormóna- og ónæmismeðferð ýmist einum sér eða saman. Fáir sjúkdómar hafa hlotið jafn mikla athygli og brjóstakrabbamein síðastliðna áratugi og miklum fjármunum hefur verið til rannsókna á sjúkdómnum. Árangur þessa hefur ekki látið á sér standa og má segja að meðferð á brjóstakrabbameini sé áratugum á undan meðferð ýmissa annarra krabbameina sem minni athygli hafa fengið. Eftir stendur þó sú staðreynd að sókn er besta vörnin og hvet ég allar konur til að fara reglulega í brjóstaskoðun og brjóstamyndatöku hvort heldur sjúkdómurinn er í ættinni eða ekki.

Sigurður Böðvarsson, læknir.