Duac

Lyf við bólum | Verðflokkur: 0 | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Benzóýl peroxíð Klindamýcín_

Markaðsleyfishafi: Stiefel Laboratories | Skráð: 1. janúar, 2007

Duac hlaup er notað við meðhöndlun á vægum til miðlungs svæsnum gelgjubólum. Hlaupið hefur bæði væga hyrnisleysandi verkun og bakteríudrepandi áhrif og verkar sérstaklega gegn gelgjubólum sem í er bólga eða þar sem sáramyndun á sér stað. Duac inniheldur tvö virk efni; klindamýcín og benzóýl peroxíð. Klindamýcín er breiðvirkt sýklalyf sem hindrar próteinframleiðslu í bakteríum og hemur þar með vöxt þeirra. Lyfið er notað við sýkingum af völdum baktería sem eru næmar fyrir því og er oft notað staðbundið við gelgjubólum. Það fækkar einnig fríum fitusýrum á yfirborði húðarinnar þar sem það er borið á. Benzóýl peroxíð er eingöngu notað útvortis og hefur góð áhrif, bæði eitt sér og sem einn þáttur í meðferð með fleiri lyfjum. Auk sýkladrepandi áhrifa hefur það hyrnisleysandi verkun, dregur úr fituframleiðslu og þurrkar húðina.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Útvortis hlaup.

Venjulegar skammtastærðir:
Notist útvortis á sýkt svæði einu sinni á dag að kvöldi. Fyrst þarf að þvo bólusvæðið vandlega, skola með volgu vatni og þerra varlega.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Ekki að fullu þekkt og er jafnframt misjafnt eftir því hversu næmir sýklarnir eru fyrir virku efnunum. Í sumum tilfellum þarf 4-6 vikna meðhöndlun áður en bati kemur fram.

Verkunartími:
Bakteríudrepandi áhrif benzóýl peroxíðs vara í minnst 2 sólarhringa en verkunartími klindamýcíns er misjafn eftir því hversu næmir sýklarnir eru fyrir lyfinu.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum þar sem börn hvorki ná til né sjá. Órofinn pakki geymist í kæli (2°C-8°C) en eftir opnun skal geyma lyfið við stofuhita og nota innan 2ja mánaða.

Ef skammtur gleymist:
Notaðu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að nota lyfið eins og venjulega. Ekki nota tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Hætta má notkun lyfsins þegar einkenni eru ekki lengur til staðar eða þegar ekki er þörf á lyfinu. Samfelld meðferð ætti ekki að vera lengri en 12 vikur nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Lítil hætta er á öðrum einkennum en staðbundinni ertingu undan lyfinu. Hafðu samband við lækni ef einhver óvenjuleg einkenni koma fram.

Langtímanotkun:
Samfelld meðferð ætti ekki að vara lengur en í 12 vikur.


Aukaverkanir

Aukaverkanir lyfsins eru bundnar við notkunarstað. Það getur valdið ertingu, roða eða sviða en þau einkenni eru yfirleitt skammvinn. Lyfið veldur mikilli ertingu ef það kemst í snertingu við slímhúð og sé það borið á húðina þar sem hún er þunn, t.d. vegna exems. Þeir sem eru með viðkvæma húð þola lyfið illa og þurfa því að nota lyfið með mikilli varúð.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Brunatilfinning          
Kláði          
Langvarandi og mikill niðurgangur          
Roði, flögnun húðar, húðþurrkur          
Versnandi gelgjubólur, bólgur í húð          

Milliverkanir

Varúðar skal gætt ef samtímis eru notuð önnur sýklalyf á húð, lyfjasápur, húðhreinsiefni, sápur og snyrtivörur sem hafa sterka þurrkandi verkun og efni með háu alkóhólinnihaldi. Slíkt getur aukið hættuna á ertingu.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með bólgusjúkdóm í þörmum
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir einhverjum lyfjum
  • þú takir blóðþrýstingslækkandi lyf

Meðganga:
Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins hjá þunguðum konum.

Brjóstagjöf:
Ekki er vitað hvort lyfið berst í brjóstamjólk. Lyfið ætti ekki að nota samhliða brjóstagjöf.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 12 ára.

Eldra fólk:
Lyfið er venjulega ekki notað.

Akstur:
Lyfið hefur ekki áhrif á aksturshæfni.

Áfengi:
Áfengi hefur ekki áhrif á verkun lyfsins.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.

Annað:
Konur á barneignaraldri ættu að nota fullnægjandi getnaðarvarnir. Varist að lyfið berist í augu, munn, slímhimnur og húð með opin sár eða exem. Mælt er með því að sólböð og notkun sólarlampa sé í lágmarki.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.