Diamox

Glákulyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Acetazólamíð

Markaðsleyfishafi: Mercury Pharmaceuticals | Skráð: 1. desember, 1972

Diamox er aðallega notað við gláku, en einnig sem þvagræsandi lyf og flogaveikilyf. Það er eitt af fyrstu þvagræsandi hjartalyfjunum sem uppgötvuðust. Virka efnið acetazólamíð hemur ensímið kolsýruanhýdrasa með þeim afleiðingum að útskilnaður tvíkarbónatjóna og ýmissa plúsjóna eykst, og þar af leiðandi verður vökvalosun úr líkamanum meiri. Þvagræsandi áhrifin vara hins vegar einungis í stuttan tíma og því hafa nýrri og betri lyf tekið við. Aðalnotkun acetazólamíðs í dag er við gláku. Ensímið kolsýruanhýdrasi á stóran þátt í vökvamyndun í auganu og með því að hemja það lækkar augnþrýstingurinn. Lyfið er venjulega ekki fyrsta val við gláku, heldur er það yfirleitt notað samhliða betablokkurum, t.d. tímólól.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
Við gláku: 125-250 mg í senn 3-4 sinnum á dag. Við flogaveiki: 8-30 mg á hvert kg líkamsþyngdar á dag í 3 skömmtum. Við bjúg: 5 mg á hvert kg líkamsþyngdar á dag eða annan hvern dag.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
60-90 mín.

Verkunartími:
6-12 klst.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef vart verður við einhver óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni.

Langtímanotkun:
Yfirleitt án vandkvæða. Æskilegt er að fylgst sé reglulega með merg-, lifrar- og nýrnastarfsemi í líkamanum.


Aukaverkanir

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Hiti, slappleiki, lystarleysi og marblettir        
Mikill magaverkur        
Minnkuð matarlyst, breytt bragðskyn          
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar      
Þreyta, syfja          

Milliverkanir

Lyfið hækkar blóðþéttni sumra sykursýkilyfja sem tekin eru inn um munn.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með Addisonssjúkdóm
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með sykursýki
  • þú sért með öndunarfærasjúkdóm
  • þú takir einhver önnur lyf

Meðganga:
Nokkur hætta er á því að lyfið hafi áhrif á fóstur.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk og getur haft áhrif á barnið.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum.

Eldra fólk:
Meiri líkur eru á aukaverkunum. Minni skammtar eru oft notaðir.

Akstur:
Lyfið hefur ekki áhrif á aksturshæfni.

Áfengi:
Lyfið veldur einnig auknum vökvaútskilnaði og því eru meiri líkur á vökvaskorti og timburmönnum ef drukkið er meðan lyfið er tekið. Haltu neyslu áfengis í lágmarki.

Íþróttir:
Bannað í og utan keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.