Stilnoct

Svefnlyf og róandi lyf | Verðflokkur: 0 | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Zolpidem

Markaðsleyfishafi: Sanofi | Skráð: 1. október, 1992

Stilnoct inniheldur virka efnið zolpidem. Lyfið er svefnlyf sem eykur áhrif hamlandi boðefnisins, GABA, á vissum stöðum í heila. Lyfið styttir tímann sem fólk þarf til að sofna, fækkar andvökum og lengir svefntíma. Í venjulegum skömmtum raskar lyfið ekki svefnmynstri og svefn verður eðlilegur. Lyfið ætti aðeins að nota í skamman tíma vegna ávanahættu. Ef lyfið er notað lengi í senn getur svefn versnað við það eitt að hætta skyndilega töku lyfsins. Zolpidem hefur ekki kvíðastillandi áhrif eins og svefnlyf af benzódíazepínflokki, t.d. flúnítrazepam, og hentar betur í þeim tilfellum þegar svefntruflanir tengjast ekki kvíða.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
5-10 mg fyrir svefn.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
15-20 mín.

Verkunartími:
6-7 klst.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Ef þú sofnar án þess að taka lyfið skaltu sleppa skammti.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Ef lyfið hefur verið tekið í viku eða styttri tíma er hægt að hætta töku þess sé ekki lengur þörf á því. Ef tíminn er lengri skaltu hafa samband við lækni áður en hætt er að taka lyfið.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Mjög stórir skammtar geta valdið löngum svefni, sljóleika og svima, minnkað samhæfingu hreyfinga og skert viðbragð. Hafðu samband við lækni ef stórir skammtar hafa verið teknir.

Langtímanotkun:
Lyfið er ekki ætlað til langtímanotkunar.


Aukaverkanir

Aukaverkanir af völdum lyfsins eru sjaldgæfar. Um 3% sjúklinga finna fyrir svima og sljóleika. Aðrar aukaverkanir koma sjaldnar fyrir.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Skapgerðarbreytingar, ofskynjanir          
Svimi, sljóleiki          
Uppköst, niðurgangur          
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar      

Milliverkanir

Öll lyf sem hafa sljóvgandi áhrif á miðtaugakerfið geta magnað sljóvgandi áhrif zolpidems og ætti því að forðast að taka lyfin samtímis.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með flogaveiki
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú sért með vöðvaslensfár (myasthenia gravis)
  • þú hafir einhvern tíma misnotað áfengi eða lyf
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú eigir við öndunarerfiðleika að stríða

Meðganga:
Nokkur hætta er á því að lyfið hafi áhrif á fóstur.

Brjóstagjöf:
Upplýsingar skortir til þess að meta áhættu fyrir barnið ef mjólkandi móðir tekur lyfið.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum.

Eldra fólk:
Auknar líkur eru á aukaverkunum, minni skammtar eru notaðir.

Akstur:
Lyfið skerðir aksturshæfni. Þessi áhrif geta varað daginn eftir að lyfið er tekið og því ætti ekki að aka bíl fyrr en reynsla er komin á það hvaða áhrif lyfið hefur.

Áfengi:
Eykur sljóvgandi áhrif lyfsins. Ekki neyta áfengis meðan lyfið er tekið.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.

Fíknarvandamál:
Stilnoct getur verið vanabindandi. Ávanahætta er lítil en eykst eftir því sem skammtar eru stærri og lyfið er notað í lengri tíma. Ávanahætta er einnig meiri hjá þeim sem hafa tilhneigingu til misnotkunar lyfja eða áfengis.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.