Leptanal

Ópíóíðar til svæfinga | Verðflokkur: 0 | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Fentanýl

Markaðsleyfishafi: Piramal Critical Care B.V | Skráð: 1. október, 1989

Leptanal er verkjastillandi lyf sem notað er á sjúkrahúsum. Virka efnið, fentanyl, hefur öflug verkjastillandi áhrif auk slævandi áhrifa. Leptanal er notað við skurðaðgerðir og rannsóknir.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Stungulyf.

Venjulegar skammtastærðir:
Skammtar eru einstaklingsbundnir. Við ákvörðun skammta skal hafa til hliðsjónar líkamsþyngd, líkamlegt ástand, sjúkdóma, samhliða notkun annarra lyfja, sem og eðli aðgerðar og svæfingar. Verkjastillandi áhrif 100 míkróg (2 ml) skammts jafngilda áhrifum 10 mg af morfíni.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Eftir inndælingu Leptanal í bláæð kemur verkun fljótt fram. Hámarks verkjastillandi áhrif koma yfirleitt fram eftir 3-5 mínútur og á sama tíma kemur öndunarbæling fram.

Verkunartími:
Verkunarlengd eftir allt að 100 míkróg stakan skammt í bláæð er um 30 mínútur.

Geymsla:
Geymið lykjurnar í ytri umbúðum til varnar gegn ljósi. Út frá örverufræðilegu sjónarmiði á að nota lyfið sem hefur verið undirbúið með smitgát strax. Ef lausnin er ekki notuð strax eru geymslutíminn og geymsluskilyrðin fyrir notkun á ábyrgð notanda og á venjulega ekki að vera lengri en 24 klst.

Ef skammtur gleymist:
Á ekki við.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Langtíma endurtekin gjöf með stuttum hléum getur valdið fráhvarfsheilkenni þegar meðferð er hætt. Ráðfærðu þig við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Leptanal er einungis notað á sjúkrahúsum. Láttu lækni eða hjúkrunarfræðing vita ef þú upplifir eftirfarandi einkenni um ofskömmtun: öndunarbælingu, skert meðvitund, hægur hjartsláttur og lágur blóðþrýstingur. Einnig geta vöðvastífleiki, vöðvakippir, ógleði, uppköst, kvíði og æsingur komið fyrir. Læknirinn mun, ef það gerist, grípa til nauðsynlegra aðgerða eins og að gefa súrefni, veita öndunarhjálp og gefa mótefni (t.d. naloxon).

Langtímanotkun:
Ekki ráðlögð.


Aukaverkanir

Flestar aukaverkanir koma fram meðan á aðgerðinni stendur og læknirinn mun bregðast við þeim meðan þú getur fundið fyrir sumum aukaverkunum í stuttan tíma á eftir. Algengastar (geta komið fyrir hjá fleiri en 1 af 10 einstaklingum) eru vöðvastífleiki, ógleði og uppköst.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Hjartsláttartruflanir, hraður eða hægur hjartsláttur          
Höfuðverkur          
Ósjálfráðar hreyfingar          
Sjóntruflanir          
Slævandi verkun          
Vellíðan          
Háþrýstingur, lágþrýstingur          
Verkir í bláæðum (æðar sem leiða blóðið til hjartans)          
Krampar í öndunarvegi eða barkakýli, skammvinnt öndunarstopp        
Ofnæmisviðbrögð í húð          
Ringlun eftir aðgerð          
Taugafylgikvilli í tengslum við deyfinguna          
Bláæðabólga          
Blóðþrýstingsflökt          
Oföndun, hiksti          
Kuldahrollur, lágur líkamshiti          
Fylgikvillar í öndunarvegi vegna deyfingarinnar eða aðgerðar          
Æsingur eftir aðgerð          

Milliverkanir

Fentanýl getur valdið auknum bælandi áhrifum með grunnri öndun, lágþrýstingi, miklum sefandi áhrifum og dái samtímis notkun lyfja sem hafa áhrif á miðtaugakerfið. Til þeirra lyfja teljast til dæmis þunglyndislyf, sefandi lyf, svefnlyf, almenn svæfinga- og deyfingalyf, róandi lyf, vöðvaslakandi lyf og áfengi. Því þarf að fylgjast mjög náið með sjúklingum sem fá þessi lyf samtímis fentanýli.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú takir einhver önnur lyf
  • þú sért með öndunarbælingu
  • þú ert með slímtappa

Meðganga:
Notkun ekki ráðlögð. Fentanyl getur borist yfir fylgju snemma á meðgöngu. Fráhvörf nýbura eins og krampar, pirringur og uppköst hafa verið tilkynnt eftir langvarandi notkun móður á ópíóíð lyfjum eins og fentanyl á meðgöngu.

Brjóstagjöf:
Þú mátt ekki gefa brjóst fyrr en Leptanal er horfið úr líkamanum (u.þ.b. 24 klst.). Ekki má nota brjóstamjólk sem hefur verið mjólkuð innan 24 klst. eftir að Leptanal var gefið.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum undir 12 ára aldri. Hjá börnum sem anda sjálf má aðeins nota lyfið til verkjastillingar í tengslum við svæfingu eða sem hluta af róandi/verkjastillandi meðferð. Börn á aldrinum 12 til 17 ára: sömu skammtar og fyrir fullorðna.

Eldra fólk:
Nota skal minni skammt handa öldruðum (> 65 ára) og veikburða sjúklingum, sem og handa sjúklingum með skjaldvakabrest eða skerta lifrarstarfsemi.

Akstur:
Leptanal getur haft áhrif á hæfnina til aksturs og notkunar véla. Ráðlegt er að bíða a.m.k. 24 klst. frá lyfjagjöf með Leptanal þar til ekið er eða vélar notaðar. Vegna einstaklingsbundins munar mun læknirinn ákveða hvenær öruggt er fyrir þig að aka eða nota vélar.

Áfengi:
Notkun ekki ráðlögð fyrir og á meðan lyfið er enn til staðar í líkamanum. Getur aukið hættu á alvarlegum aukaverkunum sem stafa af bælingu á miðtaugakerfið.

Íþróttir:
Bannað í keppni.

Fíknarvandamál:
Við endurtekna notkun ópíóíða getur þol komið fram og sjúklingur orðið líkamlega og andlega háður lyfinu. Aukin hætta er hjá sjúklingum með sögu um misnotkun efna (þ. á m. lyfja- eða áfengismisnotkun eða fíkn).

Annað:
Vegna öndunarbælandi áhrifa Leptanal skulu einungis þeir sem hafa reynslu af nútíma svæfingu með barkaþræðingu annast gjöf lyfsins.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.