Amlodipin Zentiva

Kalsíumgangalokar | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Amlódipín

Markaðsleyfishafi: Zentiva k.s. | Skráð: 18. júlí, 2023

Amlodipin Zentiva tilheyrir flokki lyfja sem kallast kalsíumgangalokar eða kalsíumblokkar. Kalsíumblokkar hindra flæði kalsíums inn í vöðvafrumur, en kalsíum er nauðsynlegt fyrir samdrátt vöðvafrumna. Vöðvafrumur í líkamanum innihalda mismikið af kalsíum og eru því ekki allar jafn mikið háðar flæði kalsíums inn í frumuna. Áhrif kalsíumblokka beinast því að mestu á frumur með lítið kalsíum, eða vöðvafrumur í æðaveggjum og hjartavöðva. Kalsíumblokkar eru síðan flokkaðir innbyrðis eftir því hvort áhrif þeirra beinast að æðum eða hjarta. Virka efnið amlódipín hefur fyrst og fremst æðavíkkandi áhrif. Það víkkar bæði kransæðar og slagæðar, minnkar með því móti blóðþrýsting og eykur blóðflæði til hjartavöðva. Amlodipin Medical er notað við háþrýstingi, langvinnri stöðugri hjartaöng og æðakrampaöng.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur til inntöku. Fáanlegar í 2,5 mg og 5 mg styrkleika.

Venjulegar skammtastærðir:
Fullorðnir: 5-10 mg á dag. Börn 6-17 ára: 2,5-5 mg á dag. Töflurnar takist með vatnsglasi.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Áhrif á háþrýsting: 1-4 dagar.

Verkunartími:
1-2 dagar eftir stöðuga töku lyfsins.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Greipaldinsafi getur haft áhrif á útskilnað amlódipíns úr líkama.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Einkenni sjúkdóms geta versnað þegar töku lyfsins er hætt. Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Ef of stór skammtur af lyfinu hefur verið notaður, eða ef barn hefur í ógáti tekið inn lyfið skal hafa samband við lækni, sjúkrahús eða eitrunarmiðstöð (sími 543 2222). Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef teknir eru stórir skammtar eða ef vart verður við óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni.

Langtímanotkun:
Án vandkvæða.


Aukaverkanir

Algengustu aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um meðan á meðferð hefur staðið eru syfja, sundl, höfuðverkur, hjartsláttarónot, roði, kviðverkir, ógleði, bólgnir ökklar, bjúgur og þreyta.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Bjúgur í útlimum          
Gula          
Hiti, slappleiki, lystarleysi og marblettir        
Hjartsláttarónot        
Höfuðverkur, svimi, þreyta          
Ógleði, kviðverkir          
Roði í andliti          
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar      
Verkur fyrir brjósti, mæði        

Milliverkanir

Náttúrulyfið Jóhannesarjurt getur dregið úr virkni lyfsins. Amlódipín getur aukið útsetningu fyrir blóðfitulækkandi lyfinu Simvastatin um allt að 77%.

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú takir einhver önnur lyf

Meðganga:
Notkun á meðgöngu er aðeins ráðlögð í samráði við lækni ef ekki finnst annar öruggari meðferðarvalkostur og ef sjálfur sjúkdómurinn hefur í för með sér meiri hættu fyrir heilsu móður og fósturs.

Brjóstagjöf:
Amlódipín skilst út í brjóstamjólk.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 6 ára.

Eldra fólk:
Venjulegar skammtastærðir.

Akstur:
Lyfið getur valdið svima og þar með haft áhrif á aksturshæfni. Ekki aka bíl fyrr en reynsla er komin á það hvaða áhrif lyfið hefur.

Áfengi:
Áfengi getur haft óæskileg áhrif á blóðþrýsting og hjartsláttarhraða. Æskilegt er að halda áfengisneyslu í lágmarki meðan lyfið er tekið.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.