Trileptal

Flogaveikilyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Oxkarbazepín

Markaðsleyfishafi: Novartis Healthcare

Trileptal, sem inniheldur virka efnið oxkarbazepín, er notað við flogaveiki. Flogaveiki getur orsakast af heilaskaða eða gengið í erfðir. Margar undirtegundir flogaveiki hafa verið skilgreindar eftir þeim einkennum sem fylgja flogunum og breytingum sem verða á heilastarfsemi á meðan þau ganga yfir. Einkenni flogaveiki stafa af óeðlilega mikilli virkni taugafrumna í heila og óvenju mikilli tíðni taugaboða. Þessar breytingar geta verið bundnar við lítinn hluta heilans eða náð yfir stóran hluta hans. Í flestum tilfellum ganga flog yfir á 20 sek.-2 mín. Oxkarbazepín er tiltölulega nýtt lyf, en það er efnafræðilega skylt öðru flogaveikilyfi, karbamazepíni. Verkunarmáti lyfjanna er talinn vera svipaður, þ. e. að minnka hæfileika taugafrumna til þess að senda frá sér boð með mjög stuttu millibili og hindra þannig þær breytingar sem verða á starfsemi heilans í flogaköstum. Oxkarbazepín virðist hafa svipað notagildi og karbamazepín við flogaveiki, sem verkar á staðbundin flog og krampaflog, en hefur ekki áhrif á störuflog. Oxkarbazepín þolist yfirleitt betur og virðist hafa færri milliverkanir við önnur lyf en karbamazepín, og er því oft notað hjá þeim sjúklingum sem ekki þola karbamazepín. Einnig er hugsanlegt að hægt sé að nota oxkarbazepín við langvarandi taugaverkjum eða sem fyrirbyggjandi við oflætisköstum.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Töflur og mixtúra til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
Fullorðnir: 600-2400 mg á dag í 2 skömmtum. Börn 6 ára og eldri: 8-46 mg á hvert kg líkamsþyngdar á dag. Töflurnar gleypist. Má skipta þeim.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
24 klst. við taugaverkjum.

Verkunartími:
Ekki að fullu þekktur.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Ef fleiri en einn skammtur gleymast í röð skaltu hafa samband við lækni. Ekki taka tvo skammta í einu.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Aukin hætta er á að flog komi fram þegar lyfjameðferð lýkur, sérstaklega hafi skammtar ekki verið minnkaðir smám saman. Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef teknir eru stórir skammtar eða ef vart verður við óvenjuleg einkenni skal hafa samband við lækni strax.

Langtímanotkun:
Æskilegt er að fylgjast reglulega með blóðþéttni lyfsins, samsetningu blóðs og lifrarstarfsemi þegar lyfið er tekið lengi í senn.


Aukaverkanir

Flestar aukaverkanir lyfsins eru vægar og koma helst fyrir í upphafi meðferðar. Einkennin mildast oft með tímanum. Algengustu aukaverkanir lyfsins eru höfuðverkur, þreyta, svimi og ósamhæfðar hreyfingar. Húðútbrot eru algeng og í flestum tilfellum skaðlítil, en geta þó verið merki um alvarlegar aukaverkanir. Þess vegna skal hafa samband við lækni strax ef vart verður við útbrot. Fái sjúklingur flogakast, sem tekur lyfið reglulega við flogaveiki, skal strax hafa samband við lækni.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Bólur í húð, hárlos        
Erfiðleikar við að samhæfa hreyfingar        
Gula        
Hiti, slappleiki, lystarleysi og marblettir      
Hjartsláttartruflanir      
Höfuðverkur, svimi, þreyta        
Kviðverkir, hægðatregða        
Ógleði, uppköst, niðurgangur        
Ósjálfráðar augnhreyfingar og sjóntruflanir        
Skapgerðarbreytingar        
Skjálfti        
Svefnhöfgi, þróttleysi og sundl        
Útbrot        
Útbrot, kláði, bjúgur og öndunarerfiðleikar    

Milliverkanir

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun eða að þú sért með barn á brjósti
  • þú sért með hjartasjúkdóm
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú takir einhver önnur lyf

Meðganga:
Lyfið eykur líkur á fósturskaða sé það notað á meðgöngu. Ekki ætti að nota lyfið nema gagnsemi þess fyrir móður sé talin vega þyngra en hugsanleg áhætta fyrir fóstrið.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk en áhrif á barnið eru ekki þekkt.

Börn:
Lyfið er ekki ætlað börnum yngri en 6 ára.

Eldra fólk:
Aukin hætta er á aukaverkunum, minni skammtar eru oft notaðir.

Akstur:
Auk þeirra áhrifa sem flogaveikin hefur sjálf, getur lyfið skert athygli og viðbragðsflýti og þar með aksturshæfni. Ekki aka bíl meðan lyfið er tekið.

Áfengi:
Ekki neyta áfengis meðan lyfið er tekið. Áfengi eykur sljóvgandi áhrif lyfsins og getur haft áhrif á niðurbrot þess í lifur.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.