Orfiril Retard

Flogaveikilyf | Verðflokkur: G | Lyfseðilsskylt

Virkt innihaldsefni: Valpróínsýra

Markaðsleyfishafi: Desitin Artzneimittel | Skráð: 1. október, 1995

Orfiril Retard, sem inniheldur valpróínsýru, er notað við flogaveiki. Flogaveiki er tilkomin af heilaskaða eða hún gengur í erfðir. Margar undirtegundir flogaveiki hafa verið flokkaðar eftir þeim einkennum sem fylgja flogunum og breytingum sem verða á heilastarfsemi á meðan þau ganga yfir. Flogaveikiseinkenni stafa af óeðlilega mikilli virkni taugafrumna í heila og hárri tíðni taugaboða. Breytingarnar eru bundnar við lítinn hluta heilabarkarins eða þær ná yfir stóran hluta heilans. Valpróínsýra minnkar hæfileika taugafrumna að senda frá sér boð með mjög stuttu millibili og hún hindrar rafboð í heilanum þar sem sum flog eiga upptök sín. Breytingar sem verða á starfsemi heilans í flogaköstum eru með þessu móti hindraðar. Valpróínsýra eykur líka virkni hins hamlandi taugaboðefnis, GABA, og við það hækkar krampaþröskuldurinn, þ.e. meira áreiti þarf til þess að valda flogakasti. Valpróínsýra er notuð við öllum megintegundum flogaveiki. Aukaverkanir valpróínsýru eru frekar tíðar og eitrunarhætta er meiri af henni en mörgum öðrum flogaveikilyfjum. Önnur flogaveikilyf, oftast karbamazepín, eru því valin eigi þau frekar við.


Notkun á lyfi

Lyfjaform:
Forðatöflur til inntöku.

Venjulegar skammtastærðir:
Fullorðnir: 20-50 mg á hvert kg líkamsþyngdar á dag. Börn: 20-40 mg á hvert kg líkamsþyngdar á dag. Takist með mat. Töflurnar gleypist heilar með vatnsglasi 1 klst. fyrir máltíð.

Hversu langur tími líður uns verkun kemur fram:
Um 2 vikur.

Verkunartími:
Ekki að fullu þekktur.

Þörf á að breyta mataræði meðan lyfið er tekið:
Engin.

Geymsla:
Geymist í lokuðum umbúðum við stofuhita þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ef skammtur gleymist:
Taktu lyfið um leið og þú manst eftir því. Ef stutt er til næsta skammts skaltu sleppa þeim sem gleymdist og halda áfram að taka lyfið eins og venjulega. Hafðu samband við lækni ef fleiri en einn skammtur gleymast í röð. Ekki taka tvo skammta í einu nema samkvæmt ráði læknis.

Hvernig á að hætta töku lyfsins:
Einkenni geta aftur komið fram þegar hætt er að taka lyfið, sérstaklega ef skammtar eru ekki minnkaðir smám saman. Ekki hætta töku lyfsins nema í samráði við lækni.

Ef tekinn er of stór skammtur:
Stakir skammtar sem eru litlu stærri en venjulega ættu ekki að skapa vanda. Ef teknir eru stórir skammtar eða ef vart verður við einkenni eins og sljóleika eða skerta meðvitund skal hafa samband við lækni strax.

Langtímanotkun:
Valpróínsýra getur valdið blóðbreytingum og haft áhrif á lifrarstarfsemi. Fylgjast þarf reglulega með samsetningu blóðs og starfsemi lifrar.


Aukaverkanir

Aukaverkanir lyfsins eru nokkuð tíðar, en 20-50% sjúklinga finna fyrir einhverjum þeirra. Algengast er að finna óþægindi frá meltingarvegi, sem koma fyrir hjá um 16% sjúklinga. Einkenni eru verst í upphafi meðferðar en minnka eða hverfa með tímanum. Fái sjúklingur flog, sem tekur lyfið reglulega við flogaveiki, skal strax hafa samband við lækni.

Aukaverkun Tíðni Leitið til læknis vegna einkenna Leitaðu strax til læknis Hættu strax töku lyfs
Algeng >1% Sjaldgæf <1% Ekki þekkt Sem eru alvarleg Í öllum tilvikum    
Aukin eða minnkuð matarlyst          
Gula          
Hiti, slappleiki, lystarleysi og marblettir        
Ógleði, uppköst, niðurgangur og kviðverkir          
Skapgerðarbreytingar          
Skjálfti          
Útbrot og mikill kláði          
Þyngdarbreytingar          

Milliverkanir

Sjá öll lyf sem geta haft áhrif á

Má ekki nota með

Getur haft áhrif á


Varúð

Læknir sem ávísar lyfinu þarf að vita hvort
  • grunur leiki á um þungun
  • þú sért með einhvern blóðsjúkdóm
  • þú sért með langvarandi lifrar- eða nýrnasjúkdóm
  • þú sért með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
  • þú takir einhver önnur lyf

Meðganga:
Lyfið eykur líkur á fósturskaða sé það notað á meðgöngu. Ekki ætti að nota lyfið nema gagnsemi þess fyrir móður sé talin vega þyngra en hugsanleg áhætta fyrir fóstrið.

Brjóstagjöf:
Lyfið berst í brjóstamjólk en í venjulegum skömmtum er ólíklegt að það hafi áhrif á barnið.

Börn:
Skammtar eru háðir líkamsþyngd.

Eldra fólk:
Aukin hætta er á aukaverkunum, minni skammtar eru oft notaðir.

Akstur:
Auk þeirra áhrifa sem flogaveikin hefur sjálf, getur lyfið skert athygli og viðbragðsflýti og þar með aksturshæfni. Ekki aka bíl á meðan lyfið er tekið.

Áfengi:
Eykur sljóvgandi áhrif lyfsins og því á ekki að neyta áfengis meðan lyfið er tekið.

Íþróttir:
Leyft við æfingar og í keppni.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um lyfið er að finna í SPC texta og í fylgiseðli lyfsins, sem má finna á heimasíðu Sérlyfjaskrá. Ef upplýsingar hér stangast á við þær upplýsingar ber að fara eftir SPC texta lyfsins og/eða fylgiseðli.